Ákveðið hefur verið að bjóða upp á breytingar á skilmálum lána þeirra einstaklinga sem keyptu stofnfjárbréf í sparisjóðum með láni frá Sparisjóðinum í Keflavík.
Fram kemur í tilkynningu, að skllmálum stofnfjárbréfalána í íslenskum krónum verði breytt með þeim hætti að skuldabréfin verða færð í upphaflegan höfuðstól að viðbættum 3,75% óverðtryggðum vöxtum frá útgáfudegi skuldabréfanna.
Erlend lán verða færð á upphaflegt gengi gjaldmiðla að viðbættum 3,75% óverðtryggðum vöxtum og þau færð yfir í íslenskar krónur. Vextir reiknast frá upphaflegum útgáfudegi.
Lánin verða óverðtryggð til allt að 25 ára
Óski lántakendur eftir því að staðgreiða lánin að lokinni skilmálabreytingu verður að auki boðið upp á afslátt sem nemur 10% af heildarstöðu.
Þessi leið verður opin öllum þeim einstaklingum sem tóku fyrrnefnd lán. Lántakendur þurfa að koma í eitthvert af útibúum sparisjóðsins til að ganga frá skilmálabreytingunni.
Stefnt er að því að búið verði að ganga frá skilmálabreytingunum að fullu fyrir febrúarlok.