Samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) stefna ekki að því að auka olíuframleiðslu þrátt fyrir að verð af hráolíu nálgist nú að vera 100 dalir á tunnu. Olíumálaráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna segist ekki hafa áhyggjur af því, og tekur í sama streng og fulltrúar OPEC frá Íran, Venesúela og Alsír.
„Það er enginn olíuskortur. Það eru nægar birgðir til á markaðinum,“ segir Mohammed bin Dhaen al-Hamli.
Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) segir aftur á móti að það sé áhyggjuefni hversu hratt olíuverð hafi hækkað.
Vangaveltur hafa verið uppi um það að OPEC-ríkin, sem ráða yfir um 40% heimsframleiðslunnar, myndu halda neyðarfund til að ræða hækkunina. Nú þykir hins vegar ólíklegt að boðað verði til slíks fundar.