Hannes Smárason krefst þess fyrir dómstóli á Manhattan í New York, að dómari hafni andmælum slitastjórnar Glitnis við yfirlýsingu sem hann gaf fyrir dómnum um það hvernig hann hyggist uppfylla skilyrði sem dómari setti fyrir frávísun skaðabótamáls Glitnis á hendur honum og sex öðrum einstaklingum auk PricewaterhouseCoopers.
Dómarinn vísaði málinu frá í desember, svo framarlega sem þau skilyrði yrðu uppfyllt að sjömenningarnir myndu ekki mótmæla lögsögu íslensks dómstóls í málinu. Þá myndu þeir lýsa því yfir að því yrði ekki mótmælt að dómur, sem fellur á Íslandi, yrði aðfararhæfur í New York.
Hannes sendi dómstólnum yfirlýsingu 12. janúar um hvernig hann myndi uppfylla þessi skilyrði. Slitastjórn Glitnis mótmælti þeirri yfirlýsingu 13. janúar og sagði hana ekki fullnægjandi. Aðrir málsaðilar hafa einnig sent yfirlýsingu til dómsins og hefur slitastjórnin einnig hafnað þeim.
Í nýrri eiðsvarinni yfirlýsingu, sem lögð var fyrir réttinn nú í vikunni, krefst Hannes þess að mótmælum slitastjórnarinnar verði hafnað og yfirlýsing sín tekin gild. Segir hann m.a. að ef andmæli slitastjórnarinnar verði tekin til greina verði hann sviptur öllum möguleikum til að taka til varna í New York ef mál verði höfðuð á hendur honum þar til að framfylgja dómum á Íslandi.
Ítrekar Hannes þá skoðun sína, að yfirlýsingin sem veitt var 12. janúar uppfylli öll skilyrði dómsins.