Fjármálastöðugleiki heimsins er enn í hættu, þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, til þess að styrkja bankakerfið. Þetta sagði Jose Vinals, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sviði peninga- og lánsfjármarkaða, á fundi í Jóhannesarborg í morgun.
„Meira en tveimur árum eftir að fjármálakrísan byrjaði, er ekki enn búið að tryggja fjármálastöðugleika. Hann er enn í hættu,” sagði Vinals.
„Tíminn er dýrmætur. Bankar standa frammi fyrir umtalsverðri fjármögnunarþörf núna og á næstu tveimru árum. Í mörgum þróuðum hagkerfum þarf að takast á við arfleifð þessarar kreppu með því að leysa úr veikleikum fjármálakerfisins í eitt skipti fyrir öll,” sagði hann.
Á fundinum sagði Olivier Blanchard, annar yfirmaður hjá AGS, að kínversk stjórnvöld ættu að leyfa gengi júansins að styrkjast hraðar. ,,Það væri gott fyrir Kína og fyrir heiminn ef júanið fengi að styrkjast hraðar,” sagði hann.
„Kína er á réttri leið. Það einblínir nú á að auka innlenda eftirspurn. Við teljum að fyrr eða síðar verði það eina rökrétta í stöðunni að leyfa gengishækkun,” sagði Blanchard.