Fjárfestingarvörur, bæði vélbúnaður og hugbúnaður, voru á síðasta ári dýrastar í Noregi en ódýrastar á Bretlandseyjum og á Íslandi, samkvæmt tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sem bar saman verð á þessum vörum í 37 Evrópuríkjum.
Fram kemur í umfjöllun norsku hagstofunnar um þetta, að lítill munur hafi þó verið á verðinu milli landa. Þannig hafi vöruverðið í Noregi verið 17% yfir meðaltalinu og munurinn á Noregi og Bretlandi var 31%.
Norska hagstofan segir, að Ísland og Bretland séu sér á parti í þessari könnun. Þetta komi nokkuð á óvart vegna þess að árið 2007 hafi fjárfestingavörur verið einna dýrastar á Íslandi og verðið svipað og í Noregi. Ástæðan fyrir þessari breytingu sé gengislækkun bæði íslensku krónunnar og breska pundsins gagnvart öðrum Evrópumyntum. Þess vegna virðist vörurnar vera ódýrari þegar horft sé á verðið frá útlöndum.