Gjaldeyrishöft burt sem fyrst

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna.
Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna.

Enn er mjög mikilvægt fyrir lífeyrissjóðina að gjaldeyrishöftum verði aflétt sem fyrst, að sögn Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landsbambands lífeyrissjóða. „Eins og staðan er núna höfum við mjög fáa og fábreytta fjárfestingarkosti. Í raun eru það bara ríkistryggð skuldabréf af ýmsu tagi sem við getum fest fé sjóðfélaga. Til að geta fengið betri ávöxtun og ekki síður til að geta tryggt okkur betur gegn áhættu þurfa sjóðirnir að geta fjárfest meira erlendis en þeir geta gert núna.“ Hrafn segist hafa fullan skilning á því að ekki sé hægt að aflétta gjaldeyrishöftum í einu vetfangi, en sjóðirnir þurfi hins vegar á því að halda að þeim verði aflétt svo fljótt sem unnt er.

Hvað árið 2011 varðar segir Hrafn að útlit sé fyrir að ávöxtun sjóðanna verði í heildina séð jákvæð, en það sé þó ekki víst. „Ég held hins vegar að ég geti fullyrt að sjóðakerfið muni ekki hafa náð þeirri 3,5 prósenta raunávöxtun sem því er ætlað að ná lögum samkvæmt. Þegar sjóðirnir geta aðeins fjárfest í ríkisskuldabréfum og íbúðabréfum er í raun illmögulegt að ná slíkri raunávöxtun og leiðir það til versnandi tryggingafræðilegrar stöðu sjóðanna.“ Hrafn segir hugsanlegt að lækka eigi markmið um raunávöxtun úr 3,5 prósentum, en fara verði varlega í slíkt. „Þegar allt var á blússandi siglingu hér fyrir nokkrum árum voru lífeyrissjóðirnir gagnrýndir fyrir að ná 6-7 prósenta raunávöxtun og vildu margir hækka lágmarksávöxtun úr 3,5 prósentum og að sjóðirnir greiddu meira út. Nú, þegar meiri hægagangur er í hagkerfinu vilja aðrir lækka markmiðið með sambærilegum rökum.“

Hrafn segir að þótt ástandið hér sé verra en undanfarin ár verði samt sem áður að hafa í huga að þegar til lengri tíma litið eru framtíðarhorfur Íslendinga mun bjartari en flestra annarra þjóða, þegar horft sé til ellilífeyrismála. „Flestar vestrænar þjóðir hafa svokallað gegnumstreymiskerfi og eru auk þess mun eldri en íslenska þjóðin. Þá fara margir Evrópubúar mun fyrr á ellilífeyri en við Íslendingar. Þetta þrennt samanlagt, yngri þjóð, lengri vinnualdur og sjóðsöfnunarkerfi, þýðir að Ísland mun ekki þurfa að glíma við sömu erfiðleika og flestar aðrar Evrópuþjóðir þegar fram líða stundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK