Rekstur Nýherja skilaði rúmlega 300 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þetta er töluverður viðsnúningur frá því árið 2009 þegar tapið nam tæpum 700 milljónum. Fyrirtækið seldi nýtt hlutafé fyrir 840 milljónir á síðasta ári og seldi jafnframt fasteign sína á 1,65 milljarða.
Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir mikilvægum áföngum hafa verið náð í rekstri félagsins á árinu. „Félagið skilaði 518 mkr í EBITDA hagnaði og 321 mkr heildarhagnaði, sem er góður viðsnúningur frá árinu á undan. Þá lauk samningum við viðskiptabanka félagsins um skipan langtímaskulda. Auk þess seldi félagið nýtt hlutafé fyrir um 840 milljónir króna og fasteign félagsins fyrir 1.650 milljónir króna. Með þessu náðist að lækka vaxtaberandi skuldir um 2,5 milljarða frá ársbyrjun,“ segir Þórður í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Eiginfjárhlutfall Nýherja lagaðist mikið á árinu og nam 30,3% í árslok. Í lok ársins 2009 var hlutfallið 13,2%.