Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, mun setjast í helgan stein nú í vikunni þegar hann lætur af störfum sem formaður ráðgjafanefndar Bandaríkjaforseta um efnahagsmál. Volcker er mikill veiðimaður og nú gefst honum gott tóm til að sinna því áhugamáli sínu, meðal annars á Íslandi.
Volcker hefur styrkt og starfað með Verndarsjóði villtra laxastofna (NASF), en Orri Vigfússon veitir sjóðnum forstöðu. Volcker hefur komið til Íslands og veitt með Orra. Viðskiptatímaritið Forbes hefur það eftir Orra að Volcker sé mikill húmoristi, og að umræðuefnin á árbakkanum séu eins langt frá hinum alþjóðlega heimi viðskipta og verði komist.
Volcker gegndi stöðu seðlabankastjóra á árinum 1979 til 1987, undir tveimur forsetum, Jimmy Carter og Ronald Reagan. Barack Obama leitaði til hans þegar hann tók við sem forseti, og féllst Volcker á að leiða ráðgjafanefnd forsetans sem hafði það stóra verkefni að takast á alþjóðlega fjármálakreppu.