Bankasýsla ríkisins gerir 7% ávöxtunarkröfu umfram áhættulausa vexti á þá eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem hún fer með fyrir hönd ríkisins. Sé horft til styttri áhættulausra vaxta þá þýðir þetta að nafnávöxtunarkrafa Bankasýslunnar er tæplega 10% en ef horft er til lengri tíma, til dæmis til vaxta á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til sex ára, þá er nafnávöxtunarkrafan um 13%.
Þeir sérfræðingar á fjármálamarkaði sem blaðið ræddi við eru sammála um að Bankasýslan geri háa kröfu á arðsemi með þessari ávöxtunarkröfu en benda á að sama skapi að hún þurfi alls ekki að vera óraunhæf með hliðsjón af núverandi aðstæðum og ef ríkið ætli að beita sér af krafti fyrir aukinni hagræðingu í bankakerfinu.
Stærsti eignarhluturinn sem Bankasýslan fer með er í Landsbanka Íslands, en ríkið á ríflega 80% hlut í bankanum. Arðsemi eigin fjár í rekstri bankans fyrstu níu mánuðina í fyrra var 10,9% og nam vaxtamunurinn á tímabilinu 2,7%. Af þessu má vera ljóst að taka þurfi til í rekstri bankans – minnka kostnað, auka vaxtamun, þókunartekjur og svo framvegis – til þess að arðsemiskrafa Bankasýslunnar fái örugglega staðist. Arðsemi Arion, sem ríkið á 13% hlut í, fyrstu níu mánuði ársins í fyrra var 10,4% og vaxtamunur inn- og útlána var 3%. Íslandsbanki, sem ríkið á 5% í, var hins vegar í nokkrum sérflokki miðað við hina stóru viðskiptabankana í fyrra: Arðsemi eiginfjár nam 16,6% og vaxtamunurinn var jafnframt ríflegur eða um 5,7%.
Þeir sérfræðingar sem blaðið hefur rætt við telja að margt geti stuðlað að því að rekstur stóru viðskiptabankanna stóru geti staðið undir hárri ávöxtunarkröfu á næstu árum. Það velti hins vegar á því að kraftur færist á ný í atvinnulífið. Bent er á að eignir bankanna voru keyptar á 60-70% afslætti og því þarf ekki að bæta endurheimtuhlutfallið mikið til þess að mynda ríflegan hagnað í rekstrinum. Ennfremur eru bankarnir að fjármagna sig á hagstæðum kjörum um þessar mundir, eins og sést þegar horft er til þess að innlánsvextir eru á bilinu 2-4%. Ef menn ganga út frá því að vaxtamunur í íslenska bankakerfinu verði sambærilegur við það sem tíðkast í hagkerfum sem búa við vanþróaða fjármálamarkaði þá gæti slík ávöxtunarkrafa gengið upp til lengri tíma.
Jón Daníelsson, hagfræðingur hjá London School of Economics, hefur bent á að þetta sýni að Íslendingar séu í raun að bera kostnaðinn af björgun bankanna. Þeir séu að borga fyrir útlánatöp bankanna og eini munurinn á þeim og íbúum þeirra ríkja sem hafa gert það gegnum hærri skatta sé sá að hér á landi er farið bakdyramegin að markmiðinu.