Bankinn bundinn þagnarskyldu

Seðlabanki Íslands - bundinn þagnarskyldu um hagsmuni viðskiptamanna.
Seðlabanki Íslands - bundinn þagnarskyldu um hagsmuni viðskiptamanna. mbl.is/Ernir

Seðlabanki Íslands er bundinn þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna bankans, samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.

Þar af leiðandi gat Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, ekki upplýst um öll þau atriði sem nefndarmenn viðskiptanefndar Alþingis inntu hann eftir á fundi á föstudaginn síðastliðinn. Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvers vegna fulltrúar Seðlabankans hafi ekki getað rætt við viðskiptanefnd Alþingis í trúnaði, segir meðal annars: „Lög um Seðlabankann kveða á um að stjórnendur, bankaráð og starfsmenn bankans séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans svo sem fram kemur í 35. grein laga um bankann. Slík þagnarskylda kemur í veg fyrir að bankinn geti upplýst um ýmis mál, hvort sem það er í trúnaði eða ekki.”

Fram hefur komið að seðlabankastjóri hafi nýlega rætt við fjárlaganefnd Alþingis í trúnaði um samtöl seðlabankastjóra Englands og Íslands varðandi Icesave-reikninga Landsbankans. Segir Seðlabankinn að sá fundur hafi verið allt annað mál, þar sem Englandsbanki hafi heimilað af sérstökum ástæðum að nefndarmenn fjárlaganefndar fengju í trúnaði að sjá endurrit samtals seðlabankastjóranna.

Seðlabanki Íslands hefur verið gagnrýndur fyrir skort á gagnsæi í söluferli Sjóvár. Seðlabankinn hafnar þessari gagnrýni: „Söluferlið var opið og gagnsætt þar sem áhugasömum aðilum sem uppfylltu tiltekin skilyrði var boðið að gera óskuldbindandi tilboð og í kjölfar þess var haldið áfram viðræðum við þá aðila sem voru með hagstæðasta tilboð. Þetta er eitt ferli sem hófst í byrjun síðasta árs og leitt hefur til þess kaupsamnings sem nú hefur verið greint frá,” segir í svari Seðlabankans, en nýlega var greint frá samkomulagi milli Eignasafns Seðlabanka Íslands og Stefnis, sjóðastýringafyrirtækis í eigu Arion banka, um kaup á 52,4% hlut í Sjóvá fyrir um 4,5 milljarða króna.

Í 35.grein laga um Seðlabanka Íslands segir meðal annars: „Bankaráðsmenn, bankastjórar og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.“


Í sömu grein sömu laga segir einnig: „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Seðlabankanum heimilt að eiga gagnkvæm upplýsingaskipti við opinbera aðila erlendis um atriði sem lög þessi taka til að því tilskildu að sá sem óskar upplýsinga sé háður samsvarandi þagnarskyldu.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK