Forstjóri og aðstoðarforstjóri Icelandic Group hafa sagt upp störfum í kjölfarið þeirrar niðurstöðu Framtakssjóðs Íslands að hætta viðræðum við fjárfestingarsjóðinn Triton.
Segjast þeir Finnbogi Baldvinsson, forstjóri, og Ingvar Eyfjörð, aðstoðarforstjóri, ekki geta með góðri samvisku lagt þeirri stefnu liðsinni sitt, sem þeir telji vera ranga, hvort sem litið sé til hagsmuna starfsmanna, birgja, eigenda eða viðskiptavina.
Framtakssjóðurinn, sem á Icelandic Group, átti í viðræðum við Triton um kaup á verksmiðjurekstri Icelandic Group en þeim viðræðum var slitið í vikunni. Jafnframt ákvað Framtakssjóðurinn að selja verksmiðjurekstur Icelandic í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemina í Kína í opnu söluferli.
„Sem kunnugt er, og tilkynnt var nýlega, hefur FSÍ tekið ákvörðun um að snúa af þeirri stefnu að fá öflugan fjárfesti til liðs við félagið. Aðila sem bolmagn hefur til að ljúka endurskipulagningu þess. Það er þessi ákvörðun sem við erum ósammála. Ákvörðun okkar tengist á engan hátt því hvaða fjárfestir átti í hlut. Við höfum ekki, og höfum aldrei haft, nokkur tengsl við Tríton. Við vorum raunar ósammála þeim farvegi sem þær viðræður fóru í, þar sem til stóð að selja starfsemi Icelandic erlendis til Tríton. Styrkur Icelandic og tækifæri til framtíðar felast í því að byggja á samsetningu félagsins eins og hún er nú, en ekki með því að búta það niður. Sé það sannarlega vilji eigenda félagsins, þá er það þeirra réttur að láta á þá leið reyna. En þá teljum við rétt að nýir stjórnendur taki við keflinu sem eru sammála þeirri stefnu," segir í yfirlýsingu þeirra Finnboga og Ingvars.