Amagerbankinn, einn af 15 stærstu bönkum Danmerkur, er gjaldþrota.
Stjórn bankans hefur gert samning við danska tryggingarsjóðinn Finansiel Stabiletet um að hlutabréf bankans og eignir verði færðar í nýtt félag undir stjórn Finansiel Stabiletet.
Að sögn fréttavefjar Jyllands-Posten eru viðskiptavinir Amagerbankans um 115 þúsund talsins og starfsmenn eru um 500. Bankinn er einn elsti bankinn í Danmörku. Hann var stofnaður 1903 undir nafninu Kastrup Bank en nafninu var breytt árið 1906 í Amagerbanken.
Bankinn hefur átt í miklum fjárhagsörðugleikum frá árinu 2008 og hafa margar tilraunir verið gerðar til að bjarga honum frá falli. Að sögn Jyllands-Posten hefur auðkýfingurinn Karsten Ree ítrekað lagt bankanum til fé, sem nú er allt tapað.
Nýr banki, sem reistur er á rústum hins gamla, verður opnaður í fyrramálið. Það þýðir þó ekki, að allir þeir, sem áttu innistæður í gamla bankanum, fái allt sitt fé til baka. Að sögn Finansiel Stabiletet eiga um 700 viðskiptavinir meiri innistæður en danski innistæðutryggingarsjóðurinn bætir. Sjóðurinn tryggir innistæður upp að 750 þúsund dönskum krónum, sem svarar til 16 milljóna íslenskra króna.
Aðalorsök þess að Amagerbankinn er nú gjaldþrota er sú að stjórnendur bankans neyddust til að afskrifa gríðarlegar fjárhæðir á síðasta fjórðungi ársins 2010. Er allt eigið fé bankans nú uppurið.
Stjórn bankans ákvað á fundi á föstudag að afskrifa 3 milljarða danskra króna útlán til viðbótar við það sem áður var ákveðið. Það þýðir að eigið fé bankans er neikvætt um 600 milljónir danskra króna.
Síðdegis á föstudag gaf danska fjármálaeftirlitið stjórn bankans frest þar til í dag til að útvega aukið eigið fé en það tókst ekki.