Hagnaður stoðtækjaframleiðandans Össurar á síðasta ári nam 35 milljónum Bandaríkjadala, nærri 4,1 milljarðir króna á núverandi gengi, sem er 10% af sölu. Árið 2009 var hagnaður félagsins 23 milljónir dala eða 7% af sölu.
Segir félagið, að góður vöxtur í sölu sé megin ástæða aukins hagnaðar. Sölutekjur námu 359 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ári samanborið við 331 milljón dala árið 2009.
Í tilkynningu frá Össuri segir að sala á spelkum og stuðningsvörum hafi verið góð og aukist jafnt og þétt yfir árið og var söluvöxturinn 12%, mælt í staðbundinni mynt. Sala á stoðtækjum hafi einnig verið góð og aukist um 8%, mælt í staðbundinni mynt.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningunni að niðurstöður ársins séu mjög ánægjulegar.