Olíufélag, sem er að sækja um leyfi til borana vestan við Hjaltlandseyjar, segir að ef svo ólíklega fari að olía leki stjórnlaust úr holunni í tvo og hálfan mánuð gæti olíuflekkurinn hugsanlega borist til Íslands, Noregs og Hollands auk Englands.
Breska fréttastofan Press Association segir að þetta komi fram í umhverfismati sem fylgi umsókn bandaríska olíufélagsins Hess þar sem lagt er mat á hvað gæti farið úrskeiðis. Segi þar að í versta falli kynni olía að leka úr borholunni í tvo og hálfan mánuð þannig að 4,3 milljónir tunna af hráolíu færu í sjóinn. Líkur á að þetta gerist séu þó afar litlar.
Félagið vill bora í 120 daga í svonefndri Cambo 4 lind um 142 km vestur af Hjaltlandi. PA segir, að bresk stjórnvöld muni taka ákvörðun á næstu mánuðum um hvort leyfið verði veitt.
Grænfriðungar, sem komust yfir umhverfismatið, segja að verið sé að veita olíufélögum boranaleyfi þrátt fyrir þann gífurlega skaða, sem olíuleki geti valdið á umhverfinu. Bresk stjórnvöld hunsi þann lærdóm, sem dreginn hafi verið af olíuslysinu í Mexíkóflóa sl. sumar.
„Þetta lítt þekkta fyrirtæki viðurkennir í eigin gögnum, að alvarlegur olíuleki myndi valda því að helmingur bresku strandlengjunnar og stór svæði í Evrópu, yrðu þakin olíu," hefur PA eftir John Sauven, framkvæmdastjóra Grænfriðunga.