Að öllu óbreyttu mun ganga verulega á gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands á næstu árum. Segja má að gjaldeyrisútflæði vegna vaxtagreiðslna Icesave-samningsins muni gera erfiða stöðu illviðráðanlega.
Hrein erlend staða Seðlabankans við upphaf þessa árs var 380 milljarðar. Inni í þessari tölu er hins vegar ekki skammtímaskuld bankans í erlendum gjaldeyri við þá sem hann skilgreinir sem innlenda aðila samkvæmt efnahagsreikningi og nemur 290 milljörðum króna.
Stærstur hluti þessara skulda eru gjaldeyrisinnistæður í eigu skilanefnda gömlu bankanna. Við þetta má bæta að skilanefndirnar eru undanþegnar gjaldeyrishöftunum og geta tekið innistæðurnar út hvenær sem er, fyrir utan að þær eru bundnar til allt að sex mánaða.
Í umfjöllun um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag segir, að þetta þýði í raun að hrein gjaldeyrisstaða SÍ er um 90 milljarðar en á móti komi að hrein neikvæð staða hins opinbera er um 630 milljarðar um þessar mundir.