Nýja Landsbankanum og Bankasýslunni barst í gær bréf frá gamla Landsbankanum þar sem fjallað er um hættu á því að misræmi í inn- og útgreiðslum á erlendri mynt geti þýtt að nýi bankinn geti aðeins greitt 229 milljarða króna af 282 milljarða skuldabréfi í erlendri mynt. Það sem upp á vantar er því 53 milljarðar.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær eru áhöld um það hvort nýi bankinn geti greitt lánið upp að fullu í erlendum gjaldeyri og er bréfið í fullu samræmi við efni fréttarinnar.
Nýi bankinn sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem frétt Morgunblaðsins var gagnrýnd. Í henni var sagt að NBI hefði nægt laust fé í krónum og að hann gæti, ef í nauðirnar ræki, keypt gjaldeyri af Seðlabankanum. Í yfirlýsingunni var hins vegar engu orði minnst á áhyggjur vegna 53 milljarða króna mismunarins, sem bréf gamla bankans staðfestir. Í frétt Morgunblaðsins á fimmtudag var ekki fjallað um lausafjárstöðu NBI í krónum, heldur áhyggjur af því að flæði erlends gjaldeyris inn og út úr bankanum gæti ekki að fullu staðið undir greiðslum af skuldabréfinu til gamla bankans, sem bréf gamla bankans staðfestir einnig.