Hagnaður af rekstri Icelandair Group nam 1,4 milljörðum króna eftir skatta á síðasta fjórðungi ársins 2010, samanborið við 9,6 milljarða tap á sama tímabili árið 2009.
Allt árið í fyrra var 4,6 milljarða króna hagnaður á rekstrinum eftir skatta en árið 2009 var 10,7 milljarða króna tap á rekstri félagsins. Fyrir skatta, fjármagnskostnað og afskriftir var hagnaður félagsins 12,6 milljarðar króna, 4,4 milljörðum króna hærri en árið 2009.
Heildarvelta á síðasta ári var 88 milljarðar króna og jókst um 10% milli ára. Á síðasta ársfjórðungi var veltan 18,8 milljarðar króna og jókst um 3% frá fyrra ári.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group segir í tilkynningu, að þetta sé besti rekstrarárangur frá upphafi félagsins og afkoman sé mun betri en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.
Bætt afkoma félagsins skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í farþegatekjum hjá Icelandair vegna bættrar sætanýtingar og góðrar tekjustýringar í leiðakerfinu. Farþegum á Norður-Atlantshafsmarkaðnum hafi fjölgað mikið og námu þeir 38% af heildarfarþegafjölda félagsins samanborið við 28% árið 2009. Þá hafi flest dótturfélög Icelandair Group skilað góðri afkomu á árinu.
Björgólfur segist einnig telja, að þrátt fyrir að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi verið kostnaðarsamt fyrir félagið muni landkynningin, sem gosið olli, skila sér í fjölgun ferðamanna til landsins.