Forgangur innistæðna í kröfuröð þrotabúa banka dregur ekki úr hvötum innistæðueigenda til að taka fé sitt úr bönkum í tilfelli fjármálaáfalls. Þetta er mat Ragnars Aðalsteinssonar, lögmanns.
Málflutningur í máli hóps almennra kröfuhafa á hendur slitastjórn Landsbanka Íslands og bæjarráðs breska sveitarfélagsins Kent, sem hófst í gær, heldur áfram í dag. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Arrowgrass Master Fund, sagði að forgangur innistæðna kæmi ekki endilega í veg fyrir bankaáhlaup. „Menn hugsa ekki með sér; þetta er allt í lagi, innistæður njóta forgangs og ég fæ mitt fé greitt eftir 3-15 ár," sagði hann, og vísaði til þess að slitameðferð fjármálastofnana getur tekið nokkurn tíma.
Ragnar benti einnig á að engin hafi getað lagt fram gögn um einhver önnur lönd sem hafi beitt afturvirkum úrræðum um kröfuröð innistæðna. „Afturvirk innleiðing forgangsréttar innistæðna getur ekki haft þau áhrif að koma í veg fyrir bankaáhlaup,“ sagði Ragnar.