Seðlabankinn neitar að afhenda drög að skýrslunni um erlenda stöðu þjóðarbúsins sem þingmönnum fjárlaganefndar var afhent í trúnaði gærkvöldi.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, kvartaði undan því á Alþingi áðan að skýrsla með jafn veigamiklum upplýsingum fyrir áhrif Icesave-samningsins skuli hafa verið afhent án þess að tími hafi gefist til efnislegrar umfjöllunar um hana í fjárlaganefndinni.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu bankastjórnar Seðlabankans verður skýrslan ekki birt opinberlega fyrr en að vinnu við mat á erlendri stöðu þjóðarbúsins verður lokið Að sögn Stefáns Jóhanns Stefánssonar, talsmanns bankans, þá verður hún birt innan fárra daga. Allt stefnir hinsvegar í að Alþingi samþykki nýjan Icesave-samning í kvöld eða á morgun.
Töluverð óvissa hefur ríkt um tölur um erlenda stöðu þjóðarbúsins frá hruni bankanna. Eins og gefur að skilja skiptir erlenda staðan veigamiklu máli þegar kemur að mati á greiðsluhæfni hagkerfisins á erlendum skuldbindingum þar sem að varpar meðal annars ljósi á áhrif þáttatekna og útflæði gjaldeyris vegna vaxtatekna.
Eins og fram kom í ræðu Þór Saari á Alþingi í dag gafst ekki tími til þess að fara yfir efni skýrslunnar á fundi fjárlaganefndar í gærkvöld. Einn nefndarmaður sem mbl.is ræddi við sagðist hafa kynnt sér efni hennar í nótt og sagði í fljótu bragði mætti draga þá ályktun að skýrsluhöfundar séu ekkert sérstaklega svartsýnir á horfurnar með hliðsjón af erlendri stöðu ríkisins.