Stöðugleiki í efnahagslífinu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Friðrik Tryggvason

Í fyrsta skipti í áraraði ríkir sæmilegur stöðugleiki í efnahagslífinu og helstu hagvísar eru Íslandi hagstæðir, að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, en hún hélt erindi á Viðskiptaþingi í dag. Sagði hún að verðbólga hafi ekki verið lægri síðan árið 2004, gengi krónunnar stöðugt og vextir hafi lækkað og ekki verið lægri um langt árabil. „Þetta er ekki lítill árangur og með honum er kominn sá stöðuleiki sem er frumforsenda þess að fyrirtækin leggi í fjárfestingar,“ sagði Jóhanna. Þá sagði hún að halli á ríkissjóði hefði minnkað til mikilla muna og að góður afgangur sé á utanríkisverslun, sem geri Íslandi kleift að styrkja gjaldeyrisvaraforða og auðveldar það að losa um gjaldeyrishöft.

Hún vék einnig að kjaraviðræðum og sjávarútvegi í erindi sínu. Sagði hún að kjaraviðræður hefðu fyrstu og fremst strandað á „ómálefnalegri kröfu atvinnulífsins á hendur stjórnvöldum um tiltekna niðurstöðu varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Slík krafa á ekkert erindi í kjaraviðræður á almennum markaði ekki síst í ljósi fyrri yfirlýsinga SA um mikilvægi sáttar á vinnumarkaði og stöðugleika í efnahagslífinu.“ Sagði hún að þegar talað sé um að stjórnvöld séu að hlaupa frá samkomulagi um samningaleið sé um villuljós að ræða.

„Sannleikurinn er sá að starfshópurinn sem fjallaði um fiskveiðistjórnunarkerfið kom með sameiginlega megintillögu, en þar er jafnframt að finna mismunandi útfærslur hvers og eins á samningaleiðinni, allt frá því að vera nánast engin breyting á núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi yfir í það að um sé að ræða mjög miklar breytingar. Svokölluð samningaleið er því alls ekki útfærð í skýrslu hópsins og alltaf ljóst að vinna yrði áfram úr þeim hugmyndum sem í skýrslunni eru.“ Sagði hún brýnt að tryggja með skýrum og afdráttarlausum hætti, í framkvæmd, að auðlindir sjávar séu eign þjóðarinnar og ráðstafað af ríkinu. Auðlindinni verði ráðstafað til leigu eða afnota til afmarkaðs tíma hverju sinni og gegn gjaldi, sem renni í auðlindasjóð.
„Þetta er kjarninn í samningaleiðinni og um hana er samkomulag,“ sagði Jóhanna.

Himinn og hafi hafi hins vegar verið milli manna í nefndinni um nokkur grundvallaratriði, meðal annars þegar kom að mögulegum leigutíma. „Sumir sáu fyrir sér 10 til 20 ár á meðan aðrir töluðu um 40 til 65 ár. Um þetta og önnur mikilvæg atriði var ekki nein sátt í nefndinni og um þau þarf að nást niðurstaða.“

Að lokum sagði forsætisráðherra að þjóðin þyrfti að rífa sig upp úr þunglyndi og svartagallsrausi og halda til haga þeim árangri sem náðst hafi frá hruni. „Við verðum að skapa hér 10 til 15 þúsund ný störf á næstu árum. Við verðum að útrýma langtímaatvinnuleysi og tryggja atvinnuleitendum virkniúrræði sem skila árangri. Við verðum að byggja upp spennandi atvinnulíf og menntunarmöguleika þannig að okkar unga fólk geri Ísland að sínum heimavelli til framtíðar. Ríkisstjórnin ætlar sér að ná árangri í þessum efnum og hefur m.a. sett af stað víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins, alla þingflokka og fleiri aðila um markvissar aðgerðir til að svo megi verða. Ég heiti á okkur öll að leggjast nú saman á árarnar í þessum efnum.“

Ræða forsætisráðherra á vef forsætisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK