Aukin alþjóðleg samkeppni á flugleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu mun höggva skarð í tekjur Icelandair á þessu ári. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri samstæðu Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið.
Björgólfur ýjaði að því að þessarar þróunar væri að vænta í kauphallartilkynningu vegna ársuppgjörs félagsins, sem birt var fyrir skömmu.
„Framboð á flugleiðum yfir Atlantshafið minnkaði almennt í kjölfar þess að fjármálakreppan gerði vart við sig af alvöru. Við bættum hins vegar í á þessu tímabili, tókum inn leiðina til Seattle 2009 og erum að bæta Washington við núna. Ágæti þeirrar ákvörðunar að draga ekki úr okkar framboði á þessum flugleiðum skilaði sér í uppgjöri síðasta árs,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.