Öll rök hníga að því að íslenska ríkið yrði sýknað af kröfum Breta og Hollendinga, sæktu þjóðirnar skaðabætur vegna Icesave-málsins fyrir íslenskum dómstólum, að mati Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns.
„Eftir því sem ég hef kynnt mér málið sýnist mér það vera augljós niðurstaða. Þetta segi ég þó auðvitað með þeim fyrirvara að aldrei er hægt að segja fyrir um niðurstöðuna með vissu. Því má hins vegar ekki gleyma að ef ríkið yrði dæmt hafa gerst brotlegt við þjóðarrétt eru þröng skilyrði um það hvenær einstaklingur – og Bretar og Hollendingar eru í þessu máli í skóm einstaklinga sem áttu innistæður í Landsbankanum – getur krafist skaðabóta fyrir brot á þjóðarrétti. Slíkum rétti er afskaplega erfitt að ná fram,“ segir Reimar.
Hann segir að einungis yrði um að ræða viðurkenningu á réttarbroti, sem fæli ekki í sér neitt um afleiðingar þess. „En þá hefðu Bretar og Hollendingar það úrræði að höfða skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum,“ segir Reimar. Þetta er í samræmi við álitsgerð sem Stefán Már Stefánsson prófessor, Benedikt Bogason héraðsdómari og dósent, Dóra Guðmundsdóttir aðjúnkt og Stefán Geir Þórisson hrl. skiluðu til fjárlaganefndar nú í janúar.
Viðfangsefni íslenskra dómstóla yrði, að sögn Reimars, í fyrsta lagi að meta það, ef skuldbindingin reynist vera á ábyrgð ríkisins, hvert efni hennar væri. „Verður hún virk þegar Tryggingasjóðurinn borgar ekki, einskonar sjálfskuldarábyrgð, eða verður hún virk þegar búið er að gera upp Tryggingasjóðinn og í ljós kemur að hann getur ekki staðið undir greiðslunum? Venjulega hefur verið litið svo á að ábyrgðir sem þessar verði ekki virkar fyrr en ljóst er með greiðslugetu aðalskuldarans. Felur þessi ábyrgð í sér rétt til vaxta? Íslensk lög eru þannig að ef hvergi er tekið neitt fram um ábyrgð, heldur einungis tiltekin ábyrgðarfjárhæð, þá er almennt ekki talinn vera réttur til vaxta,“ segir hann. „Þess eru dæmi að íslenskir dómarar hafi túlkað lög um vexti og verðtryggingu þannig að t.a.m. vextir séu einungis greiddir frá dómsuppkvaðningu,“ segir Reimar.