Samkeppnislögum breytt

mbl.is/Heiðar

Alþingi samþykkti í dag breytingar á samkeppnislögum en með þeim eru heimildir samkeppniseftirlitsins styrktar.

Frumvarpið var samþykkt með 28 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna gegn 12 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks, sem telja að ákvæði laganna, sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skipta fyrirtækjum upp eða fyrirskipa breytingar á skipulagi þeirra án þess að þau hafi gerst sek um brot á samkeppnislögum, gæti brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Viðskiptanefnd þingsins fjallaði sérstaklega um þetta fyrir þriðju og síðustu umræðu um frumvarpið. Segir m.a. í áliti meirihluta nefndarinnar, að fyrirtæki og eignarhlutir í þeim njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar en það haggi  þó ekki heimildum löggjafans til að setja eignarréttindum almenn takmörk. Löggjafinn geti skert eignarréttindi upp að vissu marki án þess að stofnist til bótaskyldu.

Með frumvarpinu séu lagðar til almennar reglur um starfsemi og starfsskilyrði fyrirtækja. Hafa beri í huga að ef eiganda eða eigendum fyrirtækis, sem sé í yfirburðastöðu á markaði, er t.d. gert að selja hluta þess þá fái hann eða þeir endurgjald fyrir þær eignir sem hafa verið látnar af hendi.

Nefndarmeirihlutinn leggur þó ríka áherslu á, að við beitingu heimildarinnar sé gætt að meðalhófi.

Í áliti þingmanna Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar, að heimildin gangi alltof langt og sé afar íþyngjandi fyrir íslenskt viðskiptalíf. Þá sé heimildin, eins og hún er útfærð í frumvarpinu, alltof matskennd, óljós og opin og brjóti svo freklega í bága við almenn sjónarmið íslensks réttar um skýrleika lagaákvæða að á hana sé  ekki hægt að fallast.

Þá hafi þeir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar, sem nefndin hafi leitað til,  sett sterka fyrirvara við að ákvæði frumvarpsins standist ákvæði stjórnarskrár Íslands. 

Álit meirihluta viðskiptanefndar

Álit þingmanna Sjálfsstæðisflokks

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK