Stjórnarfarsleg óvissa og áhætta henni tengd á Íslandi fælir erlenda fjárfestingu frá Íslandi. Innlendir fjárfestar halda einnig að sér höndum af sömu ástæðum.
Þetta er mat Höskuldar Ólafssonar, bankastjóra Arion banka. Hann gagnrýnir jafnframt björgunaraðgerðir stjórnvalda til handa ýmsum fjármálastofnunum um allt land, löngu eftir að hrunið átti sér stað haustið 2008. Slíkt sé ekki til þess fallið að stuðla að hagræðingu í fjármálakerfinu á Íslandi.
Í umfjöllun um þetta mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag segir Höskuldur, að aðrir óvissuþættir, á borð við tal um þjóðnýtingu og stöðugar deilur um fyrirkomulag fiskveiða, hamli einnig fjárfestingu til skamms og langs tíma litið.