Vísitala neysluverðs hækkaði í febrúar um 1,18% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,16%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,9% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 2,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,6% sem jafngildir 2,4% verðbólgu á ári.
Að sögn Hagstofunnar hækkaði verð á fötum og skóm um 5,5% en vetrarútsölum er að ljúka. Verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 2,5%.
Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,7%, aðallega vegna hærra markaðsverðs. Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8%, fargjöld í utanlandsflugi um 15,1% og verð á bensíni og olíum hækkaði um 1,8%.