Óraunhæft er að stefna að því að byggja upp innstæðutryggingasjóð, sem getur mætt stóru kerfisáfalli á íslenskum fjármálamarkaði.
Kemur þetta fram í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis vegna frumvarps um ný lög um innstæðutryggingar, en um mál þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag.
Segir í minnisblaðinu að heildarinnstæður í íslenskum bönkum séu um 1.500 milljarðar króna og þar af séu um 400-600 milljarðar tryggðir, samkvæmt frumvarpinu. Til að mæta algeru hruni á íslenska bankakerfinu þyrfti sjóðurinn því að vera í kringum 500 milljarða króna stór, en slík stærð væri afar kostnaðarsöm.
Af lestri minnisblaðsins má draga þá ályktun að ráðuneytið telji að innstæðutryggingasjóður geti í raun ekki tryggt innstæðueigendur fyrir falli eins af stóru bönkunum þremur án þess að ríkið hlaupi undir bagga með honum. Í frumvarpinu segir hins vegar að ríkið beri enga ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins.