Fyrirtaka var í skuldainnheimtumáli Arion banka á hendur fyrrverandi starfandi stjórnarformanni Kaupþings, Sigurði Einarssyni, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Málið er enn í fresti, en heimildir Morgunblaðsins herma að lögmenn Sigurðar reyni nú að ná sátt við Arion banka til að komast hjá dómsmáli. Gestur Jónsson flytur málið fyrir Sigurð, en héraðsdómur veitti aðilum málsins frest fram í miðjan mars til að freista þess að ná sátt.
Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að útistandandi lán Kaupþings til Sigurðar Einarssonar til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum hafi numið alls 6,3 milljörðum króna við bankahrun haust 2008. Málið sem Arion banki sækir nú á hendur Sigurði tengist þó ekki lánum til hlutabréfakaupa.