Breskir fjölmiðlar segja frá því í dag að ýmsar verslunarkeðjur í eigu gömlu íslensku bankanna gangi nú í gegnum endurskipulagningu á eignarhaldi sem undirbúning fyrir hugsanlegt söluferli. The Telegraph greinir frá því að tískuverslanakeðjan All Saints hafi verið sett á sölu og sé metin á allt að 140 milljónir punda. Slitastjórnir Kaupþings og Glitnis, sem eigi minnihlutaeign í keðjunni, hafi átt frumkvæði að sölunni og óskað eftir ráðgjöf endurskoðendafyrirtækisins Ernst og Young í ferlinu.
Um 100 All Saints verslanir eru reknar víðsvegar um Bretland, Evrópu, Bandaríkin og Rússland. Keðjan er í meirihlutaeigu kaupsýslumannsins Kevin Stanford en skilanefndir íslensku bankanna tveggja eiga umtalsverðan hlut og vilja að sögn „losa um sinn hlut og sækja gróðann úr fjárfestingunni." The Telegraph segir að salan muni marka tímamót fyrir All Saints, sem hafi komið nærri gjaldþroti vegna falls íslensku bankanna árið 2008.
Þá virðist einhver hreyfing vera á fleiri breskum fyrirtækjum sem eru að hluta í eigu föllnu íslensku bankanna. Þar á meðal eru tískuvörukeðjurnar Karen Millen og Warehouse, sem áður voru í eigu Baugs en nú skilanefndar Kaupþings. Einnig matvörukeðjan Iceland sem og House of Fraser. Sagt er að öll þessi fyrirtæki hafi samþykkt að ráðast í breytingar til að einfalda reksturinn, að líkindum til að undirbúa söluferli að sögn breskra fjölmiðla.