Sænskur gjaldþrota banki lýsti því yfir í morgun, að verið væri að undirbúa skaðabótamál á hendur fyrrum stjórn, framkvæmdastjórn og endurskoðendum bankans.
HQ AB, fyrrum móðurfélag fjárfestingarbankans HQ Bank, segir í yfirlýsingu að hugsanlega verði einnig krafist bóta frá fyrrum framkvæmdastjórum HQ AB. Tillögur um þetta verða lagðar fyrir hluthafafund í apríl.
Sænska fjármálaeftirlitið afturkallaði starfsleyfi HQ bankans í ágúst og
sagði bankann hafa brotið sænsk lög um verðbréfaviðskipti. Í
kjölfarið var bankinn þvingaður í gjaldþrotameðferð og
fjárfestingarbankinn Carnegie, sem um
tíma var að hluta í eigu dótturfélags íslenska félagsins Milestone,
keypti reksturinn.
HQ AB segist telja, að arður, sem greiddur var á árunum 2009 og 2010, hafi verið ólöglegur. Því krefðist félagið um 330 milljóna sænskra króna í bætur, jafnvirði 6 milljarða íslenskra króna.
Félagið segist einnig hafa verið að rannsaka fall bankans en komið að lokuðum dyrum hjá Carnegie, sem vilji ekki afhenda gögn. Segist stjórn HQ AB því íhuga að krefjast þess að dómstólar grípi inn í málið og neyði Carnegie til að afhenda umbeðin gögn.
HQ Bank keypti Glitni í Svíþjóð fyrir 60 milljónir sænskra króna í október 2008. Á vef Dagens Industri sagði á þeim tíma að um væri að ræða útsöluverð.