Samræmd vísitala neysluverðs lækkaði að meðaltali um 0,4% á milli desember og janúar síðastliðinn í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Tólf mánaða verðbólga er nú 2,7% í ríkjum EES og er óbreytt frá því í desember.
Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að af löndum EES hafi verðbólgan verið mest í janúar í Rúmeníu (7%), næstmest á Eistlandi (5,1%) og þriðja mest á Grikklandi (4,9%). Minnst var verðbólgan í Sviss (0,2%) og svo á Írlandi (0,2%).
Í fyrsta sinn síðan í janúar árið 2008 mælist verðbólgan hér á landi undir meðalverðbólgunni í ríkjum EES. Þannig mældist verðbólgan hér á landi í janúar 2,2% miðað við sæmræmdu vísitöluna, og lækkaði töluvert milli mánaða en hún hafði verið 3,5% í desember.
Íslandsbanki segir, að meginástæða hjöðnunar verðbólgunnar hér á landi sé, að áhrif
gengislækkunar krónunnar á verðbólgu sem varð í aðdragana og samhliða hruni
bankakerfisins hér á landi á árinu 2008 eru nú horfin, auk þess sem mikill
slaki sé á vinnumarkaði og raunar í hagkerfinu öllu.