Heildarendurheimtur þrotabús Landsbankans eru nú metnar á 1175 milljarða króna, en síðasta mat hljóðaði upp á 1138 milljarða króna. Þetta kom fram hjá samninganefnd ríkisins í Icesave málinu. Útgreiðslur úr búinu tefjast fram í ágúst.
Segir samninganefndin að heimtur hafi aukist um 37 milljarða frá síðasta mati. Hlutur Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta, í Icesave-samningnum, lækki því um 19 milljarða.
Sagði samninganefndin að tafir hafi orðið á ákveðnum málum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Vegna þess sé áætlað að útgreiðslur úr búi Landsbanka hefjist 1. ágúst í stað 1. júní eins og var áður áætlað.
Skilanefnd Landsbankans kynnti hið nýja endurheimtumat fyrir kröfuhöfum í Lundúnum í dag. Fjármálaráðuneytið segir, að meginniðurstaða hinna nýju útreikninga sé, að áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave-samninganna nemi 32 milljörðum króna í stað 47 áður.
Þá segi skilanefndin að mat á verðmæti eignasafns búsins hafi hækkað um tæplega 160 milljarða frá 30. apríl 2009 til ársloka 2010.
Breyttar forsendur fyrir útreikningum og nýju mati samninganefndarinnar eru eftirfarandi:
- Áætlaðar endurheimtur upp í forgangskröfur aukast og nema nú 89% af forgangskröfum. Í krónum talið nema áætlaðar heimtur 1175 ma.kr. í stað 1.138 ma.kr. Hækkunin nemur því 37 milljörðum króna Þar af yrði hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) 51,26% og nemur aukning TIF því um 19 milljörðum króna.
- Fyrstu greiðslur úr búi Landsbankans miðast við 1. ágúst 2011 í stað 1. júní sem fyrri útreikningar byggðu á. Lítilsháttar tafir hafa orðið á meðferð héraðsdómsmála er varða stjórnskipulegt gildi neyðarlaga og er því talið varlegt að gera ráð fyrir því að greiðslur tefjist um tvo mánuði frá því sem áður var ætlað.
- Fyrsta greiðsla áfallinna vaxta TIF til innstæðusjóða Bretlands og Hollands miðast við apríl lok 2011 í stað janúar. Vegna betri vissu um reikningsforsendur lækka áfallnir vextir til ársloka 2010 um 2 milljarða.
- Frá eign TIF dragast 1,5 milljarðar sem fara í greiðslu samkvæmt sérstökum samningi um skiptingu vaxtakröfu í bú Landsbankans.
- Samsetning eigna bús Landsbankans hefur breyst þannig að hærra hlutfall þeirra er nú í reiðufé og veðtryggðu skuldabréfi NBI, samtals um 677 milljarðar en til samanburðar nam sambærileg fjárhæð 615 milljörðum í því uppgjöri sem skilanefndin kynnti í lok þriðja ársfjórðungs 2010. Forsendur áætlana um heimtur eru því traustari en áður og óvissa hefur minnkað.
- Ákveðið hefur verið að Iceland Foods greiði hluthöfum sínum arð að fjárhæð 100 milljónir punda vegna síðasta árs sem samkvæmt upplýsingum skilanefndar mun að óbreyttu ekki hafa áhrif á verðmæti eigna búsins m.v. matið 31. desember 2010.
- Eignir í íslenskum krónum hafa minnkað sem hlutfall af heildareignum og nema nú 8% af heildareignum. Skýrist það að mestu leyti af því að hlutabréf í NBI yfirfærast í skuld NBI við bú Landsbankans í evrum, pundum og dollar.
Ný greinargerð samninganefndar Íslands