Góðmálmar héldu áfram að hækka í dag vegna ótta fjárfesta við aukna verðbólgu og vegna ólgunnar í Líbíu. Únsan af gulli kostar nú um 1.436 dali og fór innan dags upp í 1.439 dali og hefur verðið aldrei verið hærra. Jafngildir þetta því að kílóið af gulli kosti nú um 5,3 milljónir króna.
Silfur hélt áfram að hækka og silfur til afhendingar í maí kostar nú um 34,8 dali á únsuna og hefur silfurverð ekki verið hærra síðan árið 1980 þegar það náði 50,35 dölum.
Fleiri hrávörur hafa hækkað af sömu ástæðum og hefur Reuters/Jefferies hrávöruvísitalan ekki verið hærri síðan í september 2008.