Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 53,6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi samanborið við 11,9 milljarða afgang á fjórðungnum á undan.
Að sögn Seðlabankans var afgangur af vöruskiptum við útlönd 30,1 milljarðar og 1,7 milljarða afgangur var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 83 milljarða.
Seðlabankinn segir, að halla á þáttatekjum á fjórða ársfjórðungi megi eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 37,5 milljörðum og tekjur 3,1 milljarði. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 51,1 milljarði og viðskiptajöfnuður 19,3 milljörðum.
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 3965 milljörðum í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.291 milljörðum. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9326 milljarða og lækka nettóskuldir um 141 milljarða á milli ársfjórðunga.
Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2441 milljarði og skuldir 2875 milljörðum. Var hrein staða þá neikvæð um 434 milljarða.