Icesave-samningurinn, sem íslenska þjóðin mun taka afstöðu til í kosningum 9. apríl næstkomandi, felur í sér faldar niðurgreiðslur íslenska ríkisins til þeirra sem áttu innlán yfir 20.900 evra lágmarkstryggingarfjárhæð.
Þetta segir Sigurgeir Jónsson, hagfræðingur, í grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins. Segir hann að tryggingavernd Tryggingasjóðs innstæðueigenda takmarkist við þessa fjárhæð og sé sjóðnum ekki ætlað að bera tjón vegna þeirra innlánsreikninga sem eru með hærri kröfur í þrotabú Landsbankans. Undir venjulegum kringumstæðum myndi Tryggingasjóðurinn greiða innstæðueiganda lágmarkstrygginguna út strax og taka yfir kröfu hans alla. Umframheimtur myndi sjóðurinn svo láta renna til innlánseiganda.
Samkvæmt Icesave-samningnum ábyrgist sjóðurinn hins vegar lágmarkstryggingu en fær innlánskröfu hans á Landsbankann aðeins framselda að hluta. Segir Sigurgeir að þetta fyrirkomulag geti orðið Tryggingasjóðnum dýrkeypt ef gengi krónunnar lækkar á samningstímanum.