Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að íslenska ríkið muni fara í formlega kynningu á skuldabréfaútboði erlendis umsvifalaust ef að Icesave-samningurinn verður staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttir, þingmanns VG, á opnum fundi viðskiptanefndar Alþingis rétt í þessu. Már sagði að bankamenn biðu með pennann kláran eftir að samningurinn væri staðfestur.
Már var í kjölfarið spurður hvað gerðist ef Icesave-samningurinn yrði ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svaraði hann því þá til að menn þyrftu að bíða lengur og sjá hver þróunin yrði á skuldatryggingarálagi og lánshæfismati ríkisins. „Þá þyrftum við að treysta á innri öfl Ísland og halda áfram að kaupa gjaldeyri,“ sagði seðlabankastjórinn, og bætti því við að gengi krónunnar verði lægra og verðbólga meiri. Seðlabankinn þyrfti að halda áfram gjaldeyriskaupum af innlendum aðilum.