Hugmyndir um sameiningu SpKef sparisjóðs og NBI komust nýlega á dagskrá hjá ríkisstjórninni, en nú er talið líklegt að sameining bankanna tveggja sé niðurstaða viðræðna þar að lútandi.
Heimildir Morgunblaðsins herma að hugmyndin eigi rætur sínar að rekja til Bankasýslu ríkisins, sem heldur utan um eignarhlut hins opinbera í báðum fyrirtækjum. Ríkið tók SpKef yfir í apríl 2009. Ríkið hefur síðan átt tæplega 81% hlut í NBI frá því að samningar tókust milli ríkisins og skilanefndar Landsbankans um endurfjármögnun NBI í desember 2009.
Einar Hannesson, sparisjóðsstjóri í Keflavík, vildi ekki tjá sig um málið þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Hann ítrekaði hins vegar að innistæður í SpKef væru tryggðar. Fjármálaráðuneytið sendi frá sér stutta tilkynningu í gær vegna málsins, þar sem ítrekað var að innistæður í sparisjóðnum væru tryggðar í samræmi við yfirlýsingu yfirvalda frá október 2008.
Sparisjóður Keflavíkur var rjúkandi rúst eftir að hrunið skall á haustið 2008. Svo illa stóð sjóðurinn að þegar innlán og eignir voru fluttar yfir í SpKef sparisjóð, nýtt félag sem stofnað var undir starfsemina, var eigið fé sjóðsins neikvætt um sjö milljarða. Raunar var staðan svo slæm að slitastjórn gamla sparisjóðsins þurfti að fá úthlutaðar 100 milljónir króna til að geta sinnt sínum störfum.Morgunblaðið greindi frá því fyrir skömmu að það fé væri nú uppurið og væri þess vegna þörf á fjárveitingu frá ríkinu, ætti slitameðferð að halda áfram.
Talið er að sameining við NBI muni geti sparað ríkinu fé, en fram hefur komið að leggja þurfi SpKef sparisjóði til að minnsta kosti 14 milljarða króna. Sameining við NBI myndi þó ekki endilega þýða að samsvarandi upphæð myndi sparast, en leggja þyrfti NBI til fé til að mæta þeim skuldbindingum sem myndu fylgja SpKef við sameininguna.
Heimildir blaðsins herma að svipaðri aðferð kunni að verða beitt og þegar innlán SPRON voru færð yfir í Arion banka, sem var þá veitt lausafjártrygging hjá ríkinu. Samkomulag var gert við kröfuhafa SpKef í nóvember sl., um að fá greiddar 300 milljónir upp í sínar kröfur. Fari svo að innlánunum verði rennt inn í NBI, munu kröfuhafarnir ekki fá neitt í sinn hlut úr þrotabúi bankans, sem hafði gefið út ótryggð skuldabréf fyrir 35 milljarða króna.