Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að áfram verði reynt að teikna upp framtíð fyrir sparisjóðakerfið, þótt þannig hafi farið að Spkef sparisjóður verði nú sameinaður Landsbanka. Spkef var langstærsti sparisjóðuri landsins.
Steingrímur sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, að Bankasýslan muni nú hraða vinnu varðandi uppbyggingu sparisjóðakerfisins í ljósi þess sem gerðist um helgina þegar skrifað var undir samning um yfirtöku og samruna Landsbankans við Spkef sparisjóð.
Steingrímur sagði, að þegar Sparisjóðurinn í Keflavík og Byr féllu hefði verið stofnaður ný sparisjóður í Keflavík, Spkef. Hafi hugsunin verið sú að sá sparisjóður yrði kjölfestan í sparisjóðafjölskyldunni sem eftir stóð.
Sú leið hefði hins vegar siglt í strand þegar í ljós kom hve staða Sparisjóðsins í Keflavík var slæm. Hún hefði orðið of dýr fyrir ríkið og efasemdir voru um að nýi sjóðurinn réði við það hlutverk sem honum var ætlað en lausafjárvandinn hafi verið orðinn orðinn mjög knýjandi.
Steingrímur sagðist hafa gert ríkisstjórninni grein fyrir því 1. mars að óumflýjanlegt væri að breyta um stefnu og færa yrði sjóðinn inn í aðra fjármálastofnun.
„Síðan gerðust hlutirnir hratt og eftir að opinber umræða fór í gang um þetta eftir afar óheppilegan fréttaleka um miðjan dag á föstudag, var ekkert annað að gera en að ganga í að klára málið," sagði Steingrímur.