Kostnaður ríkissjóðs við samruna SpKef og nýja Landsbankann, NBI, verður 11,2 milljarðar, samkvæmt nýjasta mati sem miðast við árslok 2010. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á blaðamannafundi þar sem samruninn var kynntur.
Steingrímur lagði þó áherslu á að um mat væri að ræða og ekki endanlegan kostnað. Sagði ráðherrann að áætlað væri að 8,2 milljarðar myndu sparast með því að sameina sjóðina í stað þess að endurfjármagna SpKef.
Með því að sameina NBI og SpKef þurfi ríkissjóður aðeins að tryggja að eignir og skuldir standist á, en ekki útvega eiginfjárinnspýtingu að auki.