Stórir framleiðendur innan Samtaka olíuútflutningsríkja (OPEC) hyggjast auka framleiðslu á næstunni til þess að slá á hækkanir á heimsmarkaðsverði á undanförnu og koma í veg fyrir olíuskort á Vesturlöndum. Samkvæmt vefsíðu breska blaðsins Financial Times þá mun Kúvæt, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Nígería auka olíuframleiðslu sína á næstunni og slást þar með í hóp Sádí-Arabíu sem jók framleiðslu sína á dögunum.
Financial Times hefur eftir heimildarmönnum að aukin framleiðsla þessara landa muni vega á móti minni útflutningi frá Líbíu, en landið sem kunnugt er rambar á barmi borgarastyrjaldar. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað mikið að undanförnu og á mánudag hafði verðið ekki verið hærra síðan í september árið 2008. Óttast er að áframhaldandi hækkanir kunni að grafa undan þeim bata sem hefur verið í hagkerfum heimsins að undanförnu.