Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur breytt horfum um lánshæfiseinkunn lettneska ríkisins úr stöðugum í jákvæðar. Einkunnin er hins vegar óbreytt, BB+ en hún var hækkuð úr BB í desember.
Í yfirlýsingu segir Frank Gill, sérfræðingur hjá S&P, að landið glími enn við skort á lánsfé og miklar erlendar skuldir þótt ástandið á þeim sviðum fari nú batnandi. En á móti komi að í landinu ríki pólitískur stöðugleiki, fjárlagahalli fari minnkandi og horfur um hagvöxt séu góðar.
Lettneska hagkerfið dróst saman um nærri 25% á árunum 2008 og 2009. Er það mesti samdráttur, sem mælst hefur í heiminum að sögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem veitti landinu lánafyrirgreiðslu.
Í kjölfarið var gripið til sársaukafullra niðurskurðaraðgerða í Lettlandi.