Andri Þór Guðmundsson lauk ræðu sinni á Iðnþingi með því að leggja það til að íslensku krónunni yrði kastað og neyslustýringu stjórnvalda yrði hætt. Sagði hann að ómögulegt væri að reka fyrirtæki á Íslandi með krónuna sem gjaldmiðil, vaxtastig hér væri mörgum prósentum hærra en erlendis og samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja væri mun slakari en erlendra. Því væri nauðsynlegt að taka upp annan gjaldmiðil.
Þá sagði hann að því miður hefði neyslustýring skotið rótum hér á landi að nýju og nefndi sem dæmi álögur á sæta gosdrykki, ávaxtasafa og aðra svipaða vöru. Þá nefndi hann sem dæmi um álögur ríkisins að af útsöluverði á vodkaflöski rynni um 91 prósent til ríkisins. Hann sagði að allir væru tilbúnir að láta sitt úr hendi renna til rekstur velferðarkerfis, en takmörk þyrftu að vera á skattheimtu.