Laun forstjóra stórra íslenskra fyrirtækja liggja á bilinu tvær til fjórar milljónir króna, þótt undantekningar séu þar á. Sést þetta bæði á upplýsingum frá fyrirtækjunum sjálfum í ársreikningum þeirra og einnig er þetta mat sérfræðinga hjá ráðningarskrifstofum.
Þrjú stærstu fyrirtækin, að bönkum undanskildum, eru Össur, Marel og Actavis. Actavis er óskráð félag og þarf því ekki að gefa upplýsingar sem þessar og fékk Morgunblaðið þær ekki þegar eftir því var leitað. Laun og hlunnindi Theo Hoen, forstjóra Marels, voru um 4,8 milljónir króna á mánuði í fyrra, þegar miðað er við gengi evrunnar í dag. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, var með um 13 milljónir króna í laun á mánuði í fyrra, miðað við gengi bandaríkjadals í dag.
Heildarlaun og hlunnindi Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair, voru um 3,3 milljónir króna á mánuði og héldust óbreytt frá árinu 2009, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu og þá voru laun Eggerts B. Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, um 2,3 milljónir króna í fyrra miðað við meðalgengi evru á árinu.
Margir forstjórar íslenskra fyrirtækja eru með laun á bilinu 2-4 milljónir, ef marka má tekjublað Frjálsrar verslunar, en taka ber þeim tölum samt með ákveðnum fyrirvara, þar sem í þeirri úttekt geta verið aðrar tekjur en launatekjur, til dæmis fjármagnstekjur. Finnur Árnason, forstjóri Haga telst þar vera með tæpar fjórar milljónir króna á mánuði, Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, með um 3,1 milljón króna, Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, með um 2,8 milljónir á mánuði og svo mætti áfram telja.
Staða Steinþórs er frábrugðin stöðum hinna bankastjóranna tveggja að því leyti að laun hans eru ákveðin af kjararáði, en bankaráð hinna bankanna ákveða sjálf laun bankastjóra viðkomandi banka.
Kjararáð ákveður almennt laun æðstu embættismanna og forstjóra fyrirtækja í ríkiseigu og hvað þá varðar eru þrír menn með sambærileg laun efst í opinbera launastiganum. Þeir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans eru allir með svipuð laun. Hörður og Björn eru með um 1.340.000 krónur á mánuði og Már með um 1.300.000 krónur. Eru framlög launagreiðenda í lífeyrissjóð ekki tekin með í þessum tölum. Ef miðað er við um 15% framlag þá má áætla að laun og hlunnindi opinberu forstjóranna séu í kringum 1,5 milljónir króna.
Töluverð umræða spratt upp um launakjör seðlabankastjóra síðasta sumar, þegar svo virtist sem hækka ætti laun hans um tæpa hálfa milljón króna. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum eru laun hans nú um 1.330.000 krónur, sem áður segir, og því greinilegt að launahækkunin umdeilda hefur ekki gengið í gegn.
Þrátt fyrir yfirlýsingar um að laun embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja ættu ekki að vera hærri en laun forsætisráðherra virðast ekki allir hafa fylgt þeim fyrirmælum eftir, því á þriðjudag kom fram að fjöldi opinberra yfirmanna hefði ekki lækkað laun sín í samræmi við þau.