„Okkar kjör í þessum samningum eru mjög góð og um það bil helmingi betri en það sem hefur sést á Íslandi að undanförnu. Tenging Össurar við Ísland reyndist okkur hins vegar fjötur um fót,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Össur endurfjármagnaði skuldir sínar til fimm ára í gær, með fulltingi þriggja banka. Einn bankanna er hollenskur, ING Bank, en hinir tveir eru sænskir, Nordea og SEB. Samanlagt nemur fjármögnun fyrirtækisins um 27 milljörðum íslenskra króna.
„Það er hins vegar einföldun að öll vandamál Íslands megi rekja til þess að Icesave-deilan sé óleyst,“ segir Jón aðspurður um afstöðu sína til áhrifa Icesave-málsins á erlenda fjármögnun: „Þó er sú staðreynd án efa eitt af þeim atriðum sem hræða menn frá Íslandi. Hins vegar er það svo að íslenska móðurfélagið kemur hvergi nærri þessari fjármögnun. Í raun eru það dótturfélög Össurar erlendis sem fá þessa fjármögnun. Í lánasamningunum eru líka ákvæði um að tiltölulega litlar fjárhæðir megi vera geymdar á Íslandi, aðeins er heimilt að hafa fé á Íslandi til að mæta veltufjárþörf félagsins. Móðurfélagið er í raun meðhöndlað eins og dótturfélag í þessum samningum, sem er mjög óvenjulegt,“ segir hann.
Jón telur að erlendis sé alger vantrú á Íslandi ríkjandi. „Erlendir bankar treysta ekki íslensku efnahagskerfi, viðskiptaumhverfinu og löggjöfinni. Menn hafa treyst Íslandi hingað til. En eftir efnahagshrunið eru gerðar aðrar kröfur en áður, sérstaklega til lítillar einangraðrar þjóðar eins og Íslands.“
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir við Fréttablaðið í dag, að erlendir bankar
vantreysti því umhverfi sem íslensk fyrirtæki búi við:
tilviljunarkennda og oft órökréttra lagasetningu, versnandi
skattaumhverfi, gjaldeyrishöft og frjálsleg meðferð stjórnvalda á
stjórnsýslulögum og stjórnarháttum.