Samkvæmi, sem boðað hafði verið til um borð í snekkju Vincents Tchenguiz í Cannes í Frakklandi í kvöld verður haldið þótt eigandi snekkjunnar og Robert bróðir hans hafi verið handteknir í gær í tengslum við rannsókn á starfsemi Kaupþing í Bretlandi.
Bloomberg fréttastofan hefur eftir Sam Jaffa, talsmanni bresku fjársvikalögreglunnar, SFO, að bræðurnir hafi verið látnir lausir í gærkvöldi eftir yfirheyrslur. Þeim hafi ekki verið bannað að yfirgefa Bretland og hafi látið stofnunina vita, að þeir áformi að fara í samkvæmið í Cannes.
Samkvæmið, sem verður um borð í snekkjunni Veni Vidi Vici tengist Mipim fasteignaráðstefnunni, sem nú stendur yfir í Cannes. Bloomberg hefur eftir Sean Bellew, talsmanni Vincents Tchenguiz, að samkvæmið verði haldið eins og áformað var. Hann sagðist hins vegar ekki vita hvort bræðurnir muni sækja það.
Fram kom í fréttum Útvarpsins í dag, að bræðurnir og nokkrir aðrir þeirra, sem voru handteknir í Lundúnum í gær vegna málsins, hafi þurft að setja tryggingu áður en þeim var sleppt.
Sarosh Zaiwalla, fyrrverandi lögmaður Tchenguiz-bræðranna, sagði við Bloomberg að bræðurnir hafi tapað miklu fé á falli Kaupþings.
Sagði Zaiwalla, að hefðu bræðurnir gert sér grein fyrir því hvert stefndi hjá Kaupþingi hefðu þeir getað leitað annað um fyrirgreiðslu. Því telji þeir sig eiga skaðabótakröfu á hendur bankanum.
SFO sé að rannsaka hvort lán, sem Kaupþing veitti bræðrunum, hafi verið veitt með réttmætum hætti.
Bræðurnir eru báðir skráðir stjórnarformenn Rotch Property Group Ltd., sem á og rekur fasteignir sem metnar eru á yfir 1 milljarð punda, 190 milljarða króna. Fyrirtækið, sem er með skrifstofu í Mayfair hverfinu í Lundúnum, var endurskipulagt árið 2001.
Sunday Times mat eignir bræðranna árið 2007 á 850 milljónir punda. Robert Tchenguiz hefur m.a. átt í fyrirtækjum á borð við kráarkeðjunni Mitchells & Butlers og matvælakeðjunni J. Sainsbury.