Saga fjárfestingabanki, sem fjármagnaði stofnfjáraukningu Sparisjóðs Svarfdæla árið 2007 með lánveitingum til stofnfjáreigenda, segist í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins ætla að innheimta lánin samkvæmt ákvæðum lánasamninga.
Saga lánaði stofnfjáreigendahópi Sparisjóðs Svarfdæla samanlagt 500 milljónir króna, um það bil 3,5 milljónir á mann að meðaltali, við stofnfjáraukninguna. Í kynningarbréfi vegna fjármögnunarinnar sagði að stofnbréfin ein væru tekin að veði. Hins vegar sagði í smáa letri lánasamninganna að hægt væri að krefjast aukinna trygginga. Ríkissjóður hefur nú leyst til sín 90% stofnfjár sparisjóðsins. Seint síðasta haust barst stofnfjáreigendum síðan bréf frá Saga fjárfestingabanka, þar sem boðið var upp á að greiða lánið til baka á 15 árum með um það bil 50.000 króna greiðslu mánaðarlega.
Hafa stofnfjáreigendum nú borist þrír greiðsluseðlar. Saga vildi ekki gefa upp hversu margir stofnfjáreigenda greiddu af þessum lánum, en ekki yrði ráðist í innheimtuaðgerðir fyrr en allri óvissu hefði verið eytt.
Fulltrúar bankans hefðu jafnframt átt nokkra fundi með Samtökum stofnfjáreigenda í Svarfaðardal, til að vinna að úrlausn mála. thg@mbl.is