Breska blaðið Daily Mail segir að það hafi komið í ljós um helgina að fjárfestir hafi greitt Robert Tchenguiz þóknun, sem blaðið telur að hafi verið 1 milljón punda (tæpar 190 milljónir kr.), fyrir að koma sér í kynni við Kaupþing.
Segir blaðið að Kaupþing hafi lánað fjárfestinum Moises Gertner mikið fé og að hann hafi síðar keypt stóran hlut í bankanum.
Fram kemur á vef Daily Mail að talsmaður Tchenguiz hafi ekki getað tjáð sig um það hvort Gertner hafi greitt Tchenguiz þóknun. Hann neitar því hins vegar að Kaupþing hafi greitt Tchenguiz þóknun fyrir að hafa komið á tenglsum.
Þá segir að á meðal þess sem breska efnahagsbrotadeildin Serious Fraud Office rannsaki nú sé hlutverk Tchenguiz við að vera tengiliður á milli bankans og væntanlegra viðskiptavina og fjárfesta.
Blaðið segir að Gertner hafi notað hluta af lánsfjárhæðinni til að kaupa 2,5% hlut í Kaupþingi fyrir um 70 milljónir punda (um 13 milljarða kr.). Segir að ekki leiki grunur á að Gertner hafi brotið af sér og að SFO sé ekki að rannsaka hans mál.
Níu manns voru handteknir og færðir til yfirheyrslu í umfangsmiklum aðgerðum á vegum bresku efnahagsbrotadeildarinnar í London á miðvikudag í tengslum við rannsókn stofnunarinnar á aðdraganda falls Kaupþings. Húsleit var gerð hjá tveimur fyrirtækjum og á heimilum átta einstaklinga. Embætti sérstaks saksóknara, sem unnið hefur með SFO undanfarin misseri, aðstoðaði við aðgerðirnar. Talsmaður SFO sagði að kæmi til ákæru yrði allur málarekstur fyrir breskum dómstólum.
Aðgerðirnar eru liður í rannsókn SFO á greiðu aðgengi bræðranna Roberts og Vincents Tchenguiz að lánsfé hjá hinum fallna banka. Þeir voru báðir handteknir og yfirheyrðir. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér kveðast þeir þess fullvissir að rannsóknin muni ekkert misjafnt leiða í ljós.