Breski kaupsýslumaðurinn Kevin Stanford segir að í ágúst 2008 hafi honum verið boðið að kaupa hlutabréf í Kaupþingi fyrir jafnvirði 15 milljarða króna. Kaupþing veitti lán til kaupanna og tók veð í hlutabréfunum.
Þetta kemur fram í bréfi, sem lögmaður Stanfords skrifaði sl. föstudag. Í bréfinu er gefið til kynna, að stjórnendur Kaupþings hafi notað fé, sem bankinn fékk inn á Kaupthing Edge reikninga, til að hækka verð á hlutabréfum hans svo þeir sjálfir gætu selt sín bréf í bankanum á hærra verði.
Fjármálavefur bandaríska blaðsins New York Times, DealBook, fjallar um þetta í dag og vitnar til bréfsins, sem er 12 blaðsíður að lengd.
„Í ágúst 2008 var kom Magnús Guðmundsson, sem þá var forstjóri Kaupthing Luxembourg, að máli við umbjóðanda okkar," segir í bréfinu. „Hr. Guðmundsson bauðst til þess að kaupa bréf í Kaupþingi að verðmæti 81 milljón punda, fyrir hönd umbjóðanda okkar."
Segir í bréfinu, að Magnús hafi sent tölvupóst til Stanfords þann 6. ágúst 2008 þar sem sagði: „Ég bið þig að halda þessum viðskiptum leyndum."
Í bréfi lögmanns Stanfords segir, að lausafjárstaða Kaupþings hafi verið slæm árið 2008 og því leitað leiða til að afla nægilegs lausafjár til að fjármagna kaup á eigin bréfum og halda þannig uppi gengi bréfanna.
Þá segir í bréfinu, að hlutabréfin, sem keypt voru fyrir þetta lánsfé, hafi áður verið í eigu stjórnenda Kaupþings, sem voru þannig að losa eigin stöður.
Lögmannsstofan Speechly Bircham, sem fer með mál Stanfords, segir í bréfinu að Kaupþing hafi lánað Stanford alls 130 milljónir punda, rúma 24 milljarða króna, til að kaupa hlutabréf í bankanum. Stanford sé nú að reyna að endurheimta þetta fé, sem tapaðist þegar bankinn féll.
Nýlega hafa fallið dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Stanford og íslenskum viðskiptafélögum hans var gert að greiða lán, sem þeir og fyrirtæki þeirra fengu hjá íslenskum fjármálastofnunum, þar á meðal Kaupþingi, og gengu að hluta til í sjálfsskuldarábyrgð fyrir.
Fjársvikadeild bresku lögreglunnar, SFO, og embætti sérstaks saksóknara á Íslandi handtóku 9 manns í síðustu viku í tengslum við rannsókn á lánveitingum Kaupþings mánuðina fyrir fall bankans. Meðal hinna handteknu voru bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz.
Í yfirlýsingu í dag segir Robert Tchenguiz, að handtökurnar hafi verið óhóflegar og þeim hafi verið ætlað að vekja sem mesta athygli. Hann hafi áður ítrekað boðist til að ræða við starfsmenn fjársvikalögreglunnar um viðskiptatengsl sín við Kaupþing en þeim tilboðum hafi verið hafnað.
„Ég tel að SFO beri ábyrgð á því tjóni og þeim hnekki, sem fjölskylda mín, viðskipti og orðstír hafa beðið," segir Tchenguiz.