Útgjöld hins opinbera lækkuðu um 2%

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Heildarútgjöld hins opinbera námu 748 milljörðum króna á síðasta ári og lækkuðu um 2% milli ára, eða úr 51,0% af landsframleiðslu 2009 í 48,6% 2010. Þetta kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands. Þar af runnu 405 milljarðar króna til þriggja stærstu útgjaldaflokka hins opinbera (heilbrigðismála, fræðslumála, almannatrygginga og velferðarmála) eða 26,3% af landsframleiðslu.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála námu 143,5 milljörðum króna 2010, eða 9,3% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 115,6 milljarðar króna en hlutur heimila um 28 milljarðar eða 19,5%. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 364 þúsund krónum og lækkuðu um 22 þúsund krónur frá 2009. 15,5% heildarútgjalda hins opinbera runnu til heilbrigðismála. Til fræðslumála var ráðstafað 132 milljörðum króna 2010, eða 8,6% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera rúmlega 120 milljarðar króna og hlutur heimilanna 11,5 milljarðar króna, eða 8,7%. Um 16,1% heildarútgjalda hins opinbera rann til fræðslumála. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 169 milljörðum króna 2010, eða 11% af landsframleiðslu (22,6% heildarútgjalda).

Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um ríflega 97 milljarða króna árið 2010, eða 6,3% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafkoman neikvæð um 149 milljarða króna árið 2009 eða 10% af landsframleiðslu. Tekjur hins opinbera námu 651 milljarði króna árið 2010 og hækkuðu um 5,9% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 42,3% samanborið við 41,1% árið 2009, 44,1% árið 2008 og 47,9% árið 2007. Þær hafa því hækkað um ríflega eitt prósentustig af landsframleiðslu frá fyrra ári eftir umtalsverða lækkun frá árinu 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK