Heildarútgjöld hins opinbera námu 748 milljörðum króna á síðasta ári og lækkuðu um 2% milli ára, eða úr 51,0% af landsframleiðslu 2009 í 48,6% 2010. Þetta kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands. Þar af runnu 405 milljarðar króna til þriggja stærstu útgjaldaflokka hins opinbera (heilbrigðismála, fræðslumála, almannatrygginga og velferðarmála) eða 26,3% af landsframleiðslu.
Heildarútgjöld til heilbrigðismála námu 143,5 milljörðum króna 2010, eða 9,3% af landsframleiðslu. Þar af var hlutur hins opinbera 115,6 milljarðar króna en hlutur heimila um 28 milljarðar eða 19,5%. Á mann námu heilbrigðisútgjöld hins opinbera 364 þúsund krónum og lækkuðu um 22 þúsund krónur frá 2009. 15,5% heildarútgjalda hins opinbera runnu til heilbrigðismála. Til fræðslumála var ráðstafað 132 milljörðum króna 2010, eða 8,6% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera rúmlega 120 milljarðar króna og hlutur heimilanna 11,5 milljarðar króna, eða 8,7%. Um 16,1% heildarútgjalda hins opinbera rann til fræðslumála. Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 169 milljörðum króna 2010, eða 11% af landsframleiðslu (22,6% heildarútgjalda).
Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um ríflega 97 milljarða króna árið
2010, eða 6,3% af landsframleiðslu. Til samanburðar var tekjuafkoman
neikvæð um 149 milljarða króna árið 2009 eða 10% af landsframleiðslu.
Tekjur hins opinbera námu 651 milljarði króna árið 2010 og hækkuðu um
5,9% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 42,3%
samanborið við 41,1% árið 2009, 44,1% árið 2008 og 47,9% árið 2007. Þær
hafa því hækkað um ríflega eitt prósentustig af landsframleiðslu frá
fyrra ári eftir umtalsverða lækkun frá árinu 2007.