Gengi hlutabréfa danska vindorkufyrirtækisins Vestar hefur hækkað mikið í dag líkt og bréf annarra evrópskra fyrirtækja sem framleiða búnað til að beisla vistvæna orku.
Kjarnorkuslysið í Fukushima kjarnorkuverinu í Japan hefur sett strik í áform um frekari þróun kjarnorkuvera og þykir ljóst, að aukin áhersla verði lögð á aðra orkugjafa.
Fram kemur á fréttavef Børsen, að gengi hlutabréfa Vestas hækkaði um 7,4% í dönsku kauphöllinni í dag. Gengi hlutabréf þýska vindmylluframleiðandans Nordex hækkaði hins vegar um 19% eftir að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti að fyrirhugaðri endurnýjun þýskra kjarnorkuvera yrði frestað á meðan farið verður yfir málin.
Þá hækkuðu bréf þýsku fyrirtækjanna Solarworld og Q-cells, sem framleiða sólarorkurafhlöður, um 12 og 14%.
Þýsk stjórnvöld ákváðu í september að lengja líftíma 17 kjarnorkuvera um 8-14 ár en nú er talið hugsanlegt að hætt verði við það.