Forsvarsmönnum Seðlabankans hugnast ekki tillögur um að taka upp nýja krónu í stað íslensku krónunnar eins og Lilja Mósesdóttir, alþingismaður hefur orðað.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á blaðamannafundi þar sem ákvörðun peningastefnunefndar bankans um stýrivexti var kynnt, að Seðlabankinn hefði ekki skoðað þetta. „En það eitt að breyta nafninu á myntinni breytir engu því trúverðugleiki myntarinnar ræðst af stöðu efnahagslífsins og trúverðugleika hagstjórnarinnar," sagði Már.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði að traustur rammi um efnahagslífið skipti mestu máli. Sagði hann að vísað hefði verið til reynslu Þjóðverja í þessu sambandi en fjarstæða væri að líkja stöðu Þjóðverja á fyrri hluta síðustu aldar við Ísland.